„Það er frábært. Hann átti góðan leik síðast,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu um endurkomu Alberts Guðmundssonar í landsliðshópinn.
Albert skoraði mark Fiorentina í 2:1-tapi fyrir Napoli í ítölsku A-deildinni um síðustu helgi en hann jafnaði sig nýverið á meiðslum sem talið var að myndu halda Alberti frá keppni mun lengur en raunin varð.
„Ég hafði áhyggjur af þessu þegar ég sá hann fara út af meiddan fyrir tveimur til þremur vikum síðan. Hann fullvissaði okkur um að hann yrði klár og er klár fyrr en við héldum.
Hann er að ná góðum mínútum þangað til. Það er hörkuleikur á morgun á móti Sverri Inga [Ingasyni] og félögum í Panathinaikos. Núna taka við smá óþægilegir dagar.
Við erum nagandi neglurnar yfir því að nokkrir eigi eftir Evrópuleiki og svo kemur heil helgi sem er fram undan. Við bíðum og sjáum en það er gríðarlegur styrkur að fá hann aftur í hópinn,“ sagði Arnar á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.