„Í mars verkefni fyrir leikmenn sem spila á Íslandi, það er ekki framtíðin fyrir okkur. Því miður,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, um möguleika Gylfa Þórs Sigurðssonar á að vera valinn í landsliðshópinn.
Gylfi Þór, sem er leikmaður Víkings úr Reykjavík, var ekki valinn í fyrsta hóp Arnars. Landsliðsþjálfarinn útskýrði nánar hvers vegna Gylfi Þór hafi ekki verið valinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
„Við erum á allt annarri blaðsíðu núna heldur en nokkurn tímann áður hvað það varðar. Það er nógu erfitt fyrir leikmenn sem spila á Íslandi að komast í júlíverkefni eða septemberverkefni.
En í mars er það bara að mínu mati ómögulegt. Lið eru bara á allt öðru æfingastigi en nokkurn tímann gengur og gerist úti í hinum stóra heimi.
Með Gylfa þá vill maður auðvitað gefa svona leikmönnum ákveðinn séns og tækifæri. En svo þegar maður hugsar þetta aðeins lengur er þetta ekki heldur rétti tímapunkturinn fyrir hann.
Hann er nýkominn upp úr meiðslum og ég taldi það réttast að hann fengi tíma til þess að aðlagast hjá nýju félagi, æfa sig og koma sér í toppstand til að eiga möguleika á að vera með í næsta verkefni,“ útskýrði Arnar.