Kvennaliði Víkings úr Reykjavík hefur verið dæmdur 3:0 ósigur í leik sínum gegn Keflavík í A-deild deildabikarsins í knattspyrnu síðastliðið föstudagskvöld eftir að hafa teflt fram ólöglegum leikmanni.
Víkingur vann leikinn 5:0 og tryggði sér þannig sæti í undanúrslitum deildabikarsins. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir tók hins vegar þátt í leiknum fyrir hönd Víkings þó hún væri skráð í Val.
Þar með hefur Víkingi verið dæmt 3:0 tap, liðið hafnar í fimmta sæti riðilsins í stað annars sætis og FH fer því í undanúrslit og mætir þar Þór/KA.
Auk þess að vera dæmdur ósigur hefur Víkingur verið sektaður um 120.000 krónur fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni.