Allt í einu mættur að skrifa undir

Mikael Egill Ellertsson.
Mikael Egill Ellertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Egill Ellertsson, landsliðsmaður í fótbolta, skiptir frá Venezia til Genoa eftir tímabilið en bæði lið leika í efstu deild Ítalíu. Þar er Genoa í 12. sæti en Venezia í 19. sæti og í hættu á að falla niður í B-deildina.

„Þetta gerðist mjög hratt. Ég heyrði í þeim og tveimur dögum seinna var ég allt í einu mættur að skrifa undir. Ég er mjög sáttur við það og spenntur.

Þetta er skref upp á við á mínum ferli og ég get ekki beðið eftir að byrja í sumar en á sama tíma er einbeitingin á Venezia og að reyna að halda okkur uppi,“ sagði Mikael í samtali við mbl.is frá hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni.

„Umhverfið er spennandi og þetta er flott félag. Þetta er stórt félag á Ítalíu. Maður sá hvað Albert Guðmundsson gerði góða hluti þarna og það væri gott að feta í hans fótspor,“ bætti hann við.

Venezia er fimm stigum frá öruggu sæti þegar níu umferðir eru eftir.

„Þetta hafa verið jafntefli í síðustu fjórum leikjum og þar fengum við mikilvæg stig. Nú þurfum við að vinna leiki og þá er þetta fljótt að breytast. Við byrjum á að vinna einn leik og svo byggjum við ofan á það,“ sagði Mikael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert