„Fyrri hálfleikurinn var fínn og við vorum að koma okkur í góðar stöður,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar í Pristína í Kósóvó í kvöld.
Síðari leikur liðanna fer fram í Murcia á Spáni á sunnudaginn kemur en sigurvegarinn í einvíginu leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næsta keppnistímabili en tapliðið fellur í C-deildina.
„Við vorum að finna svæðin sem við lögðum upp með að finna. Fyrstu fimmtán til tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik voru alls ekki góðar og ég hef fulla trú á því að við munum fara betur yfir þær strax í fyrramálið. Það var margt jákvætt í okkar leik og líka margt sem þarf að laga, svona eins og gengur og gerist í fótbolta,“ sagði Aron Einar.
Aron Einar lék sem miðvörður í kvöld, við hlið Sverris Inga Ingasonar og Guðlaugs Victors Pálssonar og komst vel frá sínu.
„Mér leið vel en það eru ákveðnar áherslubreytingar með tilkomu nýs þjálfara. Það eru öðruvísi hlaup og annað og þetta eru allt hlutir sem maður þarf að venjast. Við vorum að spila nýtt leikkerfi líka en mér fannst þetta, sérstaklega í fyrri hálfleik, ganga vel.
Við héldum boltanum vel í fyrri hálfleik og hann gekk hratt á milli manna. Í síðari hálfleik gekk þetta ekki alveg jafn vel og við vorum staðir. Það er pottþétt eitthvað sem við munum fara yfir líka í fyrramálið.“
Var skrítið að ganga inn á völlinn án fyrirliðabandsins í kvöld?
„Það var ekkert skrítið að ganga inn á völlinn án fyrirliðabandsins. Ég breytist ekkert þó ég sé ekki með bandið. Það vita það allir sem hafa horft á landsliðið spila síðustu fimmtán til sextán ár. Ég mun aldrei breytast sem leikmaður og ég kem alltaf til með að öskra á menn, þó ég sé ekki með bandið.
Ég reyni að vera leiðandi, leggja mitt af mörkum og hjálpa leikmönnunum í kringum mig. Ég er bjartsýnn fyrir seinni leikinn og það er margt jákvætt úr leiknum í kvöld sem við tökum með okkur inn í síðari leikinn,“ bætti Aron Einar við í samtali við mbl.is.