„Mér fannst þetta brot en ég er ekki dómari“

Leikmenn Íslands þjappa sér saman í kvöld.
Leikmenn Íslands þjappa sér saman í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur,“ sagði Logi Tómasson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar í Pristína í Kósóvó í kvöld.

Síðari leikur liðanna fer fram í Murcia á Spáni á sunnudaginn kemur en sigurvegarinn í einvíginu leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á næsta keppnistímabili en tapliðið fellur í C-deildina.

„Fyrri hálfleikurinn var ágætur og við fengum margar góðar stöður á vellinum. Við náðum að opna þá ágætlega líka en eftir að þeir skoruðu annað markið fannst mér við aðeins hætta að spila boltanum eins og við höfðum gert framan af. Það var margt jákvætt í okkar leik og margt sem við getum lagað líka og við höldum áfram að gera það,“ sagði Logi.

Staða sem hentar mér vel

Logi lék í stöðu vængbakvarðar þegar íslenska liðið var með boltann og fann sig vel í þeirri stöðu.

„Þetta eru kannski aðeins meiri hlaup en maður er vanur. Þú þarft að verjast sem bakvörður og sækja svo sem kantmaður líka en ég er í nægilega góðu formi til þess að ráða við þau. Þessi staða hentar mér vel því ég er í grunninn leikmaður sem vill sækja á markið og mér líður bara nokkuð vel í þessari stöðu.“

Fannst þetta brot

Logi fékk að líta gula spjaldið í leiknum fyrir mótmæli en hann var ósáttur með sigurmark Kósóva.

„Ég sá þetta atvik mjög vel og mér fannst hann rífa í treyjuna hans Hákons. Hann togar hann niður, aftan frá, og mér fannst þetta vera brot en ég er ekki dómari. Ég var ósáttur með þetta og hljóp að dómaranum, sem ég átti ekki að gera, og því fór sem fór.“

Eigum góða möguleika

Íslenska liðið þarf á sigri að halda í seinni leiknum til þess að halda sæti sínu í B-deildinni.

„Við eigum góða möguleika gegn þeim finnst mér. Við sýndum það í dag að við getum unnið þetta lið. Við þurfum að fara aðeins betur yfir hlutina og það verður gott líka að hafa 1.000 Íslendinga á leiknum í Murcia, það mun heyrast vel í þeim,“ sagði Logi í samtali við mbl.is.

Jón Dagur Þorsteinsson og Orri Steinn Óskarsson svekkja sig í …
Jón Dagur Þorsteinsson og Orri Steinn Óskarsson svekkja sig í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka