Knattspyrnumaðurinn Ólafur Karl Finsen mun reyna fyrir sér á öðru sviði þegar hann verður einn af grínistum sem halda uppistand í Sykursal annað kvöld.
Ólafur Karl lék með Val á síðasta tímabili en er ekki að æfa með neinu liði um þessar mundir.
„Ég og Jóhann Alfreð höfum verið vinir lengi, mig hefur langað að prófa þetta, fékk boð um að fá að prófa og sagði já. Ég hef alveg talað í míkrófón áður, var með „monologue“ í Þjóðleikhúskjallaranum um daginn og hef veislustýrt.
Það var fólk sem þekkir mig sem fékk mig í það og veit að ég get verið hress, get grillað eitthvað. En ég hef aldrei verið með „mic“ og haldið uppistand, þannig þetta verður frumraun. Ég er mökk stressaður sko, þetta verður bara að koma í ljós,“ sagði Ólafur Karl í samtali við Fótbolta.net.
Á uppistandskvöldinu annað kvöld verður Ólafur Karl gestauppistandari en ásamt honum koma fram Bolli Már, Aron Mola, Steiney Skúla, Snjólaug Lúðvíks og Birna Rún.