Ferilskrá sem kemur ekkert inn á borð til okkar

Blikar fögnuðu vel í leikslok.
Blikar fögnuðu vel í leikslok. mbl.is/Ólafur Árdal

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var sáttur eftir sigur á Aftureldingu í fyrsta leik Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld, 2:0.

Sigurinn var nokkuð öruggur þrátt fyrir einungis tveggja marka mun á liðunum, en Blikar hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk.

„Já, já, þetta var það auðvitað. Þeir létu okkur aðeins hafa fyrir þessu hérna í lokin og það er bara þannig að ef maður gerir ekki út um leiki sem maður á að vera löngu búinn að klára er það hættan. Þeir höfðu virkilega trú og fóru í langar sendingar í lokin sem setti okkur undir pressu en að sama skapi verð ég að hrósa okkar liði fyrir að standa það af sér.

Auðvitað áttum við að vera löngu búnir að klára leikinn. Við spiluðum virkilega vel í fyrri hálfleik, þeir lágu neðarlega og það er oft erfitt að skapa færi á móti því. Við vorum klaufar að nýta ekki í færin í bland við það að þeir gerðu mjög vel að kasta sér fyrir fyrirgjafir og skot til að verja markið sitt. Fín frammistaða og góður sigur í fyrsta leik.“

Breiðablik mætti af miklum krafti til leiks og mátti minnstu muna að fyrsta markið kæmi eftir um 30 sekúndna leik. Blikar komust svo yfir á 7. mínútu og tvöfölduðu forystuna eftir rúmlega hálftíma.

„Við ætluðum okkur að mæta mjög ákveðnir bæði sóknarlega og varnarlega. Við ætluðum að vera beinskeittir, við erum með gæði og hraða í okkar liði og frábæran framherja í Tobiasi Thomsen. Við erum með nokkrar leiðir og þær gengu flestar upp í dag, það er ekki alltaf þannig. Ég er mjög ánægður með hvernig við byrjuðum þennan leik en í draumaheimi hefðum við kannski klárað hann fyrr.“

Tobias Thomsen átti frábæran leik fyrir Breiðablik en það voru ekki allir sannfærðir þegar hann var fenginn til liðsins.

„Það er ekki raunhæft fyrir íslenskt félag að taka framherja sem er að koma úr átta marka tímabili í efstu deild í Danmörku. Það er ferilskrá sem kemur ekkert inn á borð til okkar. Hann hefur átt sín bestu ár síðan hann fór frá Íslandi og kannski týnst aðeins í Danmörku en hann er bara á frábærum stað. Þetta er frábær leikmaður, spilaði vel í dag, lítur vel út og hefur komið vel inn í þetta.“

Blikar unnu Meistarakeppni KSÍ á dögunum og nú fyrsta leikinn í Bestu deildinni. Halldór segir liðið vera á virkilega góðum stað.

„Klárt mál, við erum búnir að nota veturinn vel, æfa vel og setja saman virkilega vel samsett og gott lið. Þetta er bara gamla klisjan, einn leikur í einu og það var dagurinn í dag. Það eru alltaf einhverjir hlutir sem hægt er að gera betur en heilt yfir mjög góð frammistaða, þannig við erum bara bjartsýnir með framhaldið.“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert