Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu öruggan sigur á nýliðum Aftureldingar í upphafsleik Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld, 2:0.
Yfirburðir Blika voru miklir en þeir settu tóninn strax í upphafi og litu aldrei um öxl. Breiðablik fer, eins og gefur að skilja, á topp deildarinnar með sigrinum á meðan Afturelding fer í botnsætið.
Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og mátti minnstu muna að fyrsta markið kæmi strax eftir um 30 sekúndna leik. Georg Bjarnason, hægri bakvörður Aftureldingar, náði þá að kasta sér fyrir skot Óla Vals Ómarssonar af stuttu færi og bjarga í horn, en Georg var þar án nokkurs vafa að bjarga marki.
Það tók heimamenn þó ekki nema 7 mínútur að komast yfir. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson skoraði örugglega úr vítaspyrnu eftir að Bjartur Bjarmi Barkarson hafði brotið á Valgeiri Valgeirssyni innan vítateigs.
Yfirburður Breiðabliks voru miklir næstu mínútur og birtist það vera tímaspursmál hvenær annað markið kæmi. Georg bjargaði sínum mönnum aftur á 12. mínútu en hann potaði boltanum þá í horn í þann mund er Viktor Karl Einarsson var að fara að setja hann í opið mark.
Á 19. mínútu átti Tobias Thomsen svo skot í stöng af stuttu færi eftir góðan undirbúning Viktors Karls en sem betur fer fyrir gestina sluppu þeir með skrekkinn.
Eftir rúmlega hálftíma tvöfölduðu Blikar svo forystuna. Viktor Karl fékk boltann þá á vinstri kantinum og átti sannkallaða draumasendingu fyrir markið, sem Tobias Thomsen sneiddi glæsilega í fjærhornið, óverjandi fyrir Jökul Andrésson í marki Aftureldingar.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komu svo bestu færi Aftureldingar í fyrri hálfleik. Fyrst datt boltinn fyrir Andra Frey Jónasson fyrir framan markið en hann reyndi hælspyrnu og hitti hann ekki. Andartaki síðar átti Axel Óskar Andrésson svo skalla sem datt ofan á þverslánna. Staðan í hálfleik var því 2:0, Blikum í vil.
Seinni hálfleikurinn var töluvert lokaðri en Breiðablik hafði alla stjórn á leiknum. Liðið komst nokkrum sinnum í ágætis stöður en náði ekki að skapa sér nein dauðafæri. Viktor Karl og Valgeir fengu báðir fín skotfæri í teignum en hvorugum tókst að hitta markið.
Það fór svo að lokum að Blikar sigldu nokkuð þægilegum sigri í höfn, 2:0, í leik þar sem mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudaginn.