Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks skoraði fyrsta mark Íslandsmóts karla í knattspyrnu árið 2025.
Hann kom Breiðabliki yfir gegn nýliðum Aftureldingar úr vítaspyrnu strax á 7. mínútu í leik liðanna sem hófst á Kópavogsvelli klukkan 19.15 og er upphafsleikur Bestu deildarinnar í ár. Jafnframt er þetta fyrsti leikur Aftureldingar í efstu deild karla frá upphafi. Vítaspyrnan var dæmd eftir að brotið var á Valgeiri Valgeirssyni.
Þetta er í þriðja sinn sem leikmaður Breiðabliks skorar fyrsta markið á Íslandsmótinu.
Sævar Pétursson, núverandi framkvæmdastjóri KA á Akureyri, skoraði fyrsta mark deildarinnar árið 1996 fyrir Breiðablik gegn Fylki á Kópavogsvelli, á 16. mínútu leiksins. Það dugði þó skammt því Fylkismenn skoruðu sex mörk í seinni hálfleiknum og unnu 6:1.
Hollenski framherjinn Prince Rajkomar skoraði fyrsta mark deildarinnar árið 2008 þegar hann kom Breiðabliki yfir á 15. mínútu gegn ÍA á Akranesi, í leik sem endaði 1:1. Þá var mjög mjótt á mununum því á næstu mínútu á eftir skoraði Atli Viðar Björnsson fyrir FH gegn HK og Jón Þorgrímur Stefánsson fyrir Fram gegn Fylki.