Spila þar sem þjálfararnir vilja að ég spili

Kristinn Steindórsson með boltann í leiknum í kvöld.
Kristinn Steindórsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Arnór Gauti Jónsson, leikmaður Breiðabliks, átti skínandi fínan leik í sigri á Aftureldingu, 2:0, í fyrsta leik Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Þetta var bara geggjað. Gott að byrja þetta sterkt og frábært að þetta sé loksins byrjað aftur. Tilhlökkunin hefur hefur verið mikil, undirbúningstímabilið langt og það er gott að byrja þetta vel með því að halda hreinu og vinna.“

Sigurinn var afar öruggur og hefðu Blikar hæglega getað gert út um leikinn töluvert fyrr.

„Ég get alveg tekið undir það. Við vorum mjög góðir án bolta og vorum að fljótir að vinna hann aftur þegar við töpuðum honum. Við vorum að vinna boltann oft í hættulegum stöðum og gátum þá keyrt á þá og ég er sammála því að við vorum með yfirhöndina í þessum leik. Við þurfum bara að nýta færin okkar betur því 2:0 er alltaf hættulegt, en ef við setjum þriðja markið kæfum við leikinn, við þurfum aðeins að bæta okkur í því.“

Þrátt fyrir að ná ekki að skora þriðja markið var tilfinningin sú að Blikar væru með fulla stjórn á leiknum og var erfitt að sjá endurkomu í kortunum hjá gestunum.

„Við leggjum aldrei upp með það að drepa leiki með því að verja eitthvað. Við erum alltaf að reyna að sækja eitthvað, við erum hápressulið og viljum halda í boltann en getum verið beinskeittir inn á milli. Við drápum leikinn eiginlega með því að vera ákveðnir en það vantaði bara að fylgja því eftir með mörkum.“

Arnór hefur spilað sem miðvörður í liði Breiðabliks undanfarið en hann var upphaflega fenginn til liðsins sem miðjumaður.

„Það er eitthvað sem ég hef gert áður á ferlinum, ég spilaði þar með Aftureldingu árið 2019. Það er svo sem alveg langt síðan ég spilaði þar en ég spila bara þar sem þjálfararnir vilja að ég spili. Ég legg mig alltaf 100% fram, ég treysti þeim fyrir þessu og þeir treysta mér.“

Arnór er uppalinn í Aftureldingu og var því að mæta uppeldisfélaginu í fyrsta leik liðsins í efstu deild frá upphafi.

„Ég bý ennþá í Mosó og það er geggjað að sjá Aftureldingu í efstu deild, þar eiga þeir að vera. Þetta er 15.000 manna bæjarfélag og þeir eiga bara að vera í efstu deild.

Það er sætt að sjá þá þar. Þeir hafa verið nokkuð stabílir í 1. deild undanfarin ár og þetta hefur verið markmiðið, þannig þeir eiga mikið hrós skilið.

Þetta er vel spilandi lið en þeir höfðu gott að því að koma í jarðtenginguna hjá okkur. Þeir verða að átta sig á því að það er mikill munur á milli deilda en þeir eru vel spilandi og þeim mun vegna vel.“

Arnór segir það aldrei hafa komið til greina að skipta í uppeldisfélagið í vetur.

„Nei, alls ekki. Gott hjá þeim að komast upp en það hvarflaði ekki einu sinni að mér. Stefnan er sett út og ekkert neðar en það. Það er bara æfing á morgun og næsti leikur, ég legg allt mitt að mörkum og sjáum hvert það tekur mig.“

Arnór Gauti Jónsson, leikmaður Breiðabliks.
Arnór Gauti Jónsson, leikmaður Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert