Tobias Thomsen, leikmaður Breiðabliks, var fyrst og fremst undrandi á spilamennsku liðsins í viðtali við blaðamann mbl.is eftir 4:2-tap liðsins gegn Fram í Úlfarsárdal í Bestu deild karla í kvöld.
Breiðablik var með 2:0 forystu í hálfleik en Tobias skoraði seinna mark Breiðabliks í lok fyrri hálfleiks. En í seinni hálfleik fór allt á versta veg hjá gestunum og Fram skoraði fjögur mörk og vann góðan endurkomusigur.
„Þetta voru mikil vonbrigði. Ég hreinlega vissi ekki að við gætum dottið svona langt niður. Ég hef verið mjög sáttur með liðið og hvernig við gerum hlutina til þessa en það kom mér á óvart að sjá hvernig þetta fór hjá okkur í seinni hálfleik.
Fram gerði vissulega vel, settu mikið af boltum inn á teiginn og létu finna vel fyrir sér. Við áttum engu að síður að gera betur, stíga upp og klára þetta því við vorum vissulega í mjög góðri stöðu í hálfleik.
Við gerðum vel í fyrri hálfleik og spiluðum flottan fótbolta sem Fram hafði engin svör við en um leið og þeir skoruðu mark í seinni hálfleiknum þá kom upp eitthvað stress hjá okkur og við náðum ekki að spila okkar leik. Þ
að er engin afsökun, ég og allt liðið áttum að gera betur í lokin og það er alveg á hreinu að við þurfum að gera betur í næstu leikjum,” sagði Tobias Thomsen.