2. umferð: Tímamót hjá Karli, Guðmundi, Emil, Víkingi og Fram

Karl Friðleifur Gunnarsson skorar 2.000. markið í sögu Víkings í …
Karl Friðleifur Gunnarsson skorar 2.000. markið í sögu Víkings í deildakeppninni. mbl.is/Ólafur Árdal

Karl Friðleifur Gunnarsson og Guðmundur Magnússon skoruðu tímamótamörk, hvor á sinn hátt, í annarri umferð Bestu deildar karla í fótbolta og Emil Atlason náði stórum áfanga.

Karl Friðleifur skoraði 2.000. mark Víkings í deildakeppninni frá upphafi þegar hann kom Víkingum í 3:0 í gærkvöld, þegar þeir sigruðu KA 4:0.

Víkingar hafa nú skorað 2.001 mark frá upphafi, þar af eru 1.188 mörk í efstu deild og 813 í næstefstu deild en Víkingar léku fyrst á Íslandsmótinu árið 1918.

Guðmundur Magnússon fagnar öðru marka sinna gegn Breiðabliki.
Guðmundur Magnússon fagnar öðru marka sinna gegn Breiðabliki. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Guðmundur Magnússon setti heldur betur svip sinn á leik Fram og Breiðabliks þegar hann kom inn á í liði Fram í síðari hálfleiknum en þá voru Blikar tveimur mörkum yfir. Guðmundur skoraði tvívegis í 4:2 sigri Framara og seinna markið var hans 40. mark í efstu deild.

Þar af eru 36 mörk fyrir Fram og hann er sjötti markahæstur í sögu félagsins í efstu deild, en hann gerði auk þess þrjú mörk fyrir Víking í Ólafsvík og eitt fyrir ÍBV í deildinni. Guðmundur hefur nú alls skorað 98 mörk í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins.

Tímamótaleikur Framara

Framarar léku einmitt tímamótaleik gegn Breiðabliki en þetta var 1.100. leikur félagsins í efstu deild frá árinu 1912 þegar Fram var eitt af þremur stofnliðum deildarinnar. Aðeins tvö félög hafa leikið fleiri leiki í efstu deild, KR 1.294 og Valur 1.254.

Emil Atlason spilaði í kvöld sinn 100. leik í efstu deild fyrir Stjörnuna sem sigraði ÍA, 2:1, í Garðabænum. Hann er tíundi leikmaðurinn í sögu Stjörnunnar sem nær 100 leikjum í deildinni en hann kom til félagsins frá HK fyrir tímabilið 2020. Emil á samtals að baki 183 leiki í deildinni með Stjörnunni, HK, Þrótti R., Val og KR.

Hinn 15 ára gamli Sigurður Breki Kárason í baráttu við …
Hinn 15 ára gamli Sigurður Breki Kárason í baráttu við Valsmenn í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Sigurður Breki Kárason varð yngsti leikmaðurinn í byrjunarliði í efstu deild frá karla í kvöld þegar hann hóf leik með KR gegn Val, 15 ára og 125 daga gamall, eins og sagt var frá á mbl.is fyrr í kvöld. Hann sló met Eiðs Smára Guðjohnsens sem lék 15 ára og 250 daga gamall í byrjunarliði Vals gegn Keflavík í fyrstu umferð deildarinnar árið 1994.

Alls hafa þó 12 leikmenn leikið yngri í deildinni en Sigurður, en enginn þeirra verið í byrjunarliði.

Ólíkir markahæstu menn

Patrick Pedersen úr Val og Jóhannes Kristinn Bjarnason eru markahæstir í deildinni eftir tvær umferðir en þeir skoruðu tvö mörk hvor í fjörugum jafnteflisleik liðanna í kvöld, 3:3. Þeir eru með ólíkan feril sem markaskorarar, Patrick er kominn með 119 mörk í þriðja sætinu yfir markahæstu menn deildarinnar frá upphafi en Jóhannes hefur þegar skorað fleiri mörk í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en hann hafði skorað í fyrstu 40 leikjum sínum í efstu deild.

Jóhannes Kristinn Bjarnason er kominn með þrjú mörk í fyrstu …
Jóhannes Kristinn Bjarnason er kominn með þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjunum í ár. mbl.is/Eyþór Árnason

Markahæstir eftir 2. umferð:
3 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
3 Patrick Pedersen, Val
2 Andri Rúnar Bjarnason, Stjörnunni
2 Guðmundur Magnússon, Fram
2 Luke Rae, KR
2 Tobias Thomsen, Breiðabliki
2 Valdimar Þór Ingimundarson, Víkingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert