Íslandsmeistarar Breiðabliks fóru illa með Stjörnuna, 6:1, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik er með þrjú stig á toppnum en Stjarnan er neðst án stiga.
Samantha Smith, sem var aðalkona Breiðabliks í lokaleikjum síðasta tímabils, var ekki lengi að koma heimakonum yfir en á fjórðu mínútu fékk hún boltann frá Heiðu Ragneyju Viðarsdóttur og smellti honum í vinstra hornið, 1:0.
Samantha var aftur á ferðinni á 16. mínútu þegar hún keyrði upp völlinn og smellti boltann ofarlega í hægra hornið, 2:0.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við þriðja marki Blika á 21. mínútu eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur. Þá datt boltinn fyrir hana inn í teignum og hún skoraði, 3:0.
Agla María skoraði síðan fjórða mark Breiðabliks á 27. mínútu með föstu skoti á nærstöngina.
Berglind Björg var síðan aftur á ferðinni á 33. mínútu en þá fékk hún boltann frá Andreu Rut Bjarnadóttur, tók á móti honum og skoraði með föstu skoti, alvöru framherjamark.
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna á 37. mínútu með góðri afgreiðslu eftir sendingu frá Andreu Mist Pálsdóttur, 5:1.
Varamaðurinn Karitas Tómasdóttir skoraði síðan sjötta mark Blika þegar hún skaut í þaknetið eftir viðkomu í varnarmann, 6:1.
Breiðablik heimsækir Þrótt úr Reykjavík og Stjarnan fær Víking úr Reykjavík í heimsókn í næstu umferð.