„Við erum svo spenntar. Við höfum beðið lengi og okkur fannst við eiga þetta skilið,“ sagði Mackenzie Smith, fyrirliði Fram í knattspyrnu, í samtali við mbl.is.
Fram er nýliði í Bestu deildinni í ár og leikur raunar í efstu deild í fyrsta sinn í 37 ár.
„Þetta er allt öðruvísi. Við erum öll að reyna að undirbúa okkur eins vel og við getum til þess að vera sem samkeppnishæfastar í ár,“ bætti Smith við, en hún var einnig fyrirliði Fram þegar liðið hafnaði í öðru sæti í 1. deild á síðasta tímabili.
Spurð hvernig ástatt væri fyrir leikmannahópnum þegar skammt er í að Besta deildin hefji göngu sína í ár sagði Smith:
„Við erum ekki með mikið af meiðslum á þessum tímapunkti. Það eru fáein meiðsli hér og þar eins og eðlilegt er þegar við byrjum að spila aftur.
En staðan er betri núna en um mitt síðasta tímabil til dæmis. Það líta allir vel út og ættu að vera í lagi fyrir fyrsta leik. Sem betur erum við ekki að glíma við nein alvarleg meiðsli.“
Hver eru markmið Framara á tímabilinu?
„Ég held að þau verði alltaf fólgin í því að koma inn í deildina, gera vel og vinna leiki. Hvað okkur varðar viljum við veita bestu liðunum samkeppni.
Við viljum vitanlega lifa af, halda okkur uppi og spila annað tímabil í þessari deild.“
Fram hafnar í 9. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Fram heimsækir Þrótt í Laugardalinn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 í kvöld.