Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, er ánægð með innkomu nýrra leikmanna liðsins fyrir komandi tímabil og telur það góðs viti að andstæðingar liðsins þekki ekki til þeirra.
„Þeir eru búnir að koma mjög vel inn í þetta. Það eru nú ekki margir búnir að sjá þessa leikmenn þar sem þeir spiluðu nú ekki í deildabikarnum, fyrir utan einn en ekki restin.
Þeir eru búnir að taka með okkur tvo æfingaleiki núna, einn í æfingaferð á Spáni, og koma vel inn í þetta. Það verður gaman að sjá okkur af því ég held að flest liðin hafi ekkert séð þessa leikmenn. Það er held ég fínt fyrir okkur,“ sagði Bryndís Rut í samtali við mbl.is.
Öflugir leikmenn á við Jordyn Rhodes og Monicu Wilhelm eru hins vegar horfnir á braut. Spurð hvort það hafi verið erfitt fyrir Stólana að sjá á eftir mörgum sterkum erlendum leikmönnum undanfarin ár sagði hún:
„Já og nei. Auðvitað viljum við halda svipuðum hóp og kjarna eins og við gerðum nú fyrir nokkrum árum síðan. Við vorum svolítið í því að halda sama hópnum. En auðvitað er fólk með mismunandi áherslur hjá sér og vill gera ýmislegt.
Við misstum einn leikmann í þýsku 1. deildina í fyrra og samgleðjumst henni mjög mikið að vera þar. Við misstum Jordyn yfir í Val núna en það er náttúrlega líka hennar að velja.
Auðvitað vill maður alveg halda í leikmenn en maður skilur það líka að fólk vill gera annað. Við fáum þá mann inn í staðinn og það er búið að ganga ótrúlega vel.“
Tindastóll hafnar í 8. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Tindastóll mætir nýliðum FHL á Sauðárkróki í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 annað kvöld.