Selma Dögg Björgvinsdóttir, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, er spennt fyrir komandi tímabili í Bestu deildinni í knattspyrnu.
Mikill uppgangur hefur átt sér stað hjá Víkingi síðustu tvö tímabil en liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar sem nýliði í fyrra. Þá varð liðið bikarmeistari sumarið 2023.
„Þetta leggst mjög vel í okkur. Við erum tilbúnar í að veisla byrji og erum með skýr og flott markmið. Þetta verður mjög spennandi,“ sagði Selma Dögg þegar mbl.is spurði hana út í komandi leiktíð.
Hver er staðan á hópnum?
„Staðan er ansi góð. Það eru nokkrar að glíma við smávægileg meiðsli. Þetta er þó lítið og þær verða komnar í toppstand fyrir mót.“
Selma Dögg segir liðið vera með mjög háleit markmið eftir síðustu tvö tímabil.
„Við erum með markmið og það er að gera betur en í fyrra. Við höfnum í þriðja sæti í fyrra og viljum ná hærra og maður fer ekki að eltast við annað sætið ef maður getur verið í því fyrsta.
Við erum með mjög háleit markmið.“
Selma býst við jafnari móti í ár en undanfarin tímabil hafa Breiðablik og Valur verið skrefi á undan öðrum liðum.
Hvernig nálgast Víkingur þessi tvö lið?
„Ég held við séum búin að vera gera það með því að vera að styrkja okkur með sterkum leikmönnum. Við höfum verið að ná miklum árangri og framförum á síðustu árum. Ég held að þetta verði ekki bara á milli Vals og Breiðabliks í ár, fleiri lið munu koma inn í þetta.
Valur er, að ég held, að byrja á aðeins öðruvísi vegferð. Breiðablik er með gríðarlega sterkan hóp og mun gera mjög vel. Ég held þó að þetta verði ekki þessi tvö lið sem verða með mikið forskot.
Ég myndi segja að á milli þessara þriggja liða að þá verði ekki svona rosalegur stigamunur og var í fyrra,“ bætti Selma við.
Víkingur úr Reykjavík hafnar í 5. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Víkingur fær Þór/KA í heimsókn í Fossvoginn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á morgun.