Fyrsta mark Bestu deildar kvenna í fótbolta árið 2025 lét ekki bíða lengi eftir sér. Tveir fyrstu leikirnir hófust núna klukkan 18 á Kópavogsvelli og á Þróttarvelli og það kom mark strax á 4. mínútu.
Markið kom á Kópavogsvelli og þar skoraði bandaríski frramherjinn Samantha Smith með hörkuskoti gegn Stjörnunni, 1:0.
Samantha byrjar því á svipaðan hátt og hún lauk síðasta tímabili en hún skoraði níu mörk í síðustu sjö leikjum Blika eftir að hún kom þangað frá FHL í ágúst. Áður var hún búin að taka þátt í því að skjóta FHL upp í Bestu deild í fyrsta skipti með því að skora 15 mörk í 14 leikjum í 1. deildinni.
Í hinum leik kvöldsins mætast Reykjavíkurliðin Þróttur og Fram í Laugardalnum.