Gríðarlega mikilvægt að fá hana aftur

Miðjumaðurinn öflugi Katie Cousins er komin aftur til Þróttar frá …
Miðjumaðurinn öflugi Katie Cousins er komin aftur til Þróttar frá Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þróttur úr Reykjavík hefur styrkt sig til muna fyrir komandi átök í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. 

Liðið er búið að fá sex leikmenn og þar á meðal Þórdís Elvu Ágústsdóttur frá Växjö, Unni Dóru Bergsdóttur frá Selfossi og Katie Cousins til baka frá Val en hún hefur verið með betri leikmönnum deildarinnar undanfarin ár. 

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, telur að þessar styrkingar muni hjálpa liðinu mjög svo. 

„Þetta eru frábærar styrkingar hjá okkur. Unnur og Þórdís hafa verið að koma mjög vel inn í þetta hjá okkur. Síðan að fá Katie aftur, eins og allir vita, er gríðarlega sterkt og mikilvægt fyrir okkur. Þetta eru bæði karakterar og síðan leikmenn með mikil gæði,“ sagði Álfhildur Rósa í samtali við mbl.is. 

Trúi og vona að það verði þannig

Breiðablik og Valur hafa verið langbestu lið landsins síðustu ár en Álfhildur gæti séð fyrir sér breytingu á því. 

Telurðu að deildin verði jafnari í ár en síðustu ár?

„Ég vona það. Vanalega hafa hin liðin ekki komið nálægt þessum tveimur liðum en mér finnst það hafa verið að jafnast aðeins meira út. Það eru fleiri lið sem eru að ná stigum á móti þessum liðum og ég vona í sumar að keppnin verði aðeins spennandi og fleiri lið blandi sér í baráttu um titilinn. Ég get trúað því og vona að það verði þannig.“

Þrótt­ur úr Reykja­vík hafn­ar í 3. sæti sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is sem birt­ist í blaðinu sl. fimmtu­dag. Þrótt­ur fær Fram í heim­sókn í Laug­ar­dal­inn í fyrstu um­ferð Bestu deild­ar­inn­ar í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert