Höfum fengið sterka leikmenn inn

Agla María Albertsdóttir er komin með fyrirliðabandið hjá Breiðabliki.
Agla María Albertsdóttir er komin með fyrirliðabandið hjá Breiðabliki. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Tímabilið leggst vel í okkur og við erum spenntar að byrja,“ sagði Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Breiðabliks, í samtali við mbl.is um komandi tímabil í Bestu deildinni í fótbolta.

Telma Ívarsdóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eru farnar frá Breiðabliki og í atvinnumennsku erlendis. Í staðinn hefur Kópavogsfélagið fengið sterka leikmenn á borð við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, Heiðdísi Lillýjardóttur og markvörðinn Katherine Devine.

„Við missum Telmu og fleiri út en við höfum fengið sterka leikmenn inn. Katie, markvörðurinn okkar, hefur komið mjög öflug inn.

Heiðdís hefur sömuleiðis komið í fantaformi inn, þótt það hafi komið bakslag hjá henni. Berglind hefur svo verið að finna sitt gamla form aftur,“ sagði hún.

Heiðdís meiddist í leik Breiðabliks gegn Val í deildabikarnum í síðasta mánuði en þau meiðsli eru væntanlega ekki alvarleg. Aðrir leikmenn eru klárir í slaginn.

„Það eru allir klárir í fyrsta leik og meiðslin hjá Heiðdísi virka ekki alvarleg,“ sagði Agla María, sem tók við fyrirliðabandinu af Ástu Eir Árnadóttur sem lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.

Breiðabliki var spáð Íslandsmeistaratitlinum í spá Morgunblaðsins sem var birt í fimmtudagsblaðinu. Liðið mætir Stjörnunni í 1. umferðinni í kvöld klukkan 18 á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert