Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, lék ekki síðustu leiki liðsins á undirbúningstímabilinu vegna smávægilegra hnémeiðsla. Hún hefur jafnað sig á meiðslunum og er klár í slaginn í Bestu deildinni í fótbolta.
„Ég fékk högg á hnéð á móti Víkingi í deildabikarnum og var aðeins að glíma við það. Ég er komin aftur á fullt núna og verð klár í fyrsta leik,“ sagði Arna við mbl.is.
Hún á ekki von á öðru en að flestir leikmenn FH verði klárir í slaginn í 1. umferðinni er liðið mætir bikarmeisturum Vals á útivelli.
„Það eru einhverjar sem eru enn að glíma við langtímameiðsli en af þeim sem spiluðu á undirbúningstímabilinu ættu allar að vera klárar í fyrsta leik,“ sagði Arna.
FH var í sjöunda sæti í spá Morgunblaðsins sem var birt í fimmtudagsblaðinu. Liðið byrjar tímabilið á útileik gegn uppeldisfélaginu Örnu, Val, klukkan 18 annað kvöld.