Knattspyrnumaðurinn Daði Ólafsson hefur lagt skóna á hilluna, 31 árs að aldri, vegna erfiðra meiðsla. Daði hefur leikið með uppeldisfélaginu Fylki nánast allan ferilinn.
Daði tilkynnti um ákvörðunina í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.
Hann sleit krossband í hné fyrir rúmum tveimur árum og spilaði því ekkert árið 2023. Síðastliðið sumar náði Daði tveimur leikjum í Bestu deildinni en meiddist þá aftur og hefur ekkert getað spilað á undirbúningstímabilinu í ár. Því finnur hann sig tilknúinn að láta staðar numið.
„Besti klúbbur í heimi, takk fyrir mig! Leave football before football leaves you, ákvörðun sem mig langaði ekki að taka en neyðist því miður til. Ég ætlaði alltaf að vinna eina af stóru dollunum með Fylki og það markmið er enn til staðar en ég mun gera það í öðru hlutverki,“ skrifaði Daði.
Hann lék alls 94 leiki og skoraði sex mörk í efstu deild fyrir Fylki auk þess að spila 29 leiki og skora eitt mark í 1. deild. Þá lék hann fimm leiki og skoraði tvö mörk fyrir ÍR að láni sumarið 2016 í 2. deild.