Sex óléttar í liðinu yfir allt árið

Anna María Baldursdóttir.
Anna María Baldursdóttir. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar í knattspyrnu, segir leikmenn liðsins spennta fyrir komandi tímabili þar sem stefnan sé sett á að gera betur en á síðasta tímabili þegar sjöunda sæti varð niðurstaðan.

„Tímabilið leggst vel í okkur. Það er gaman að það byrji svona snemma. Við erum bara spenntar fyrir þessu,“ sagði Anna María í samtali við mbl.is.

Lítið er um meiðsli í leikmannahópi Stjörnunnar og staðan á hópnum þegar Besta deildin fer að hefjast því góð.

„Staðan er bara frekar góð. Það er ekkert alvarlegt í gangi. Það er svona smá hnjask hér og þar en annars eru flestallar góðar,“ útskýrði hún.

Hver eru markmið Stjörnunnar á tímabilinu?

„Góð spurning. Maður fer kannski ekki að segja of mikið núna, þetta er svo langt mót. Það er erfitt að setja eitthvað eitt endamarkmið en að sjálfsögðu er fyrsta markmið að gera betur en í fyrra.

Það er þetta klassíska. Svo er bara að taka þetta leik fyrir leik í rauninni og vona að okkar fótbolti komi okkur ofar og ofar í töflunni,“ sagði Anna María.

Síðasta tímabil vonbrigði

Spurð hvort síðasta tímabil hafi verið Stjörnukonum vonbrigði sagði Anna María:

„Já, í rauninni má segja að það hafi verið vonbrigði. Það er langt síðan Stjarnan hefur verið svona neðarlega í töflunni. Þó það sé hægt að taka einhverja ljósa punkta úr hverju tímabili hefðum við viljað enda ofar.“

Mikla athygli vakti hversu margir leikmenn Stjörnunnar þurftu frá að hverfa á síðasta tímabili þar sem þær voru barnshafandi.

„Yfir allt árið voru samtals sex óléttar. Það var náttúrlega alveg erfitt en maður hefur ekki stjórn á þessu og það er auðvitað frábært að þær séu að fjölga sér. En það var kannski smá erfitt að það voru allar í einu,“ sagði hún um barnalán síðasta árs í Garðabænum.

Stjarnan hafnar í 6. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Stjarnan heimsækir Íslandsmeistara Breiðabliks í Kópavog í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert