Landsliðskonan Sandra María Jessen átti frábært tímabil með Þór/KA í Bestu deildinni í knattspyrnu í fyrra.
Sandra, sem varð þrítug fyrr á árinu, skoraði 22 mörk í deildinni og var langmarkahæst en Akureyrarliðið hafnaði í fjórða sæti deildarinnar.
Þrátt fyrir frábært tímabil segir Sandra að stefnan sé alltaf að bæta sig.
„Maður fer inn í tímabilið með það hugarfar að gera enn betur en í fyrra. Ég er alveg viss um að við séum farnar að þekkja enn betur hver á aðra.
Stelpurnar þekkja mína styrkleika og vita hvernig á að nýta þá sem best. Þær eru stór hluti af því að gekk vel hjá mér í fyrra.
Ég er viss um að við sem lið munum gera enn betur í sumar,“ sagði Sandra María.
Þór/KA hafnar í 4. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Þór/KA heimsækir Víking úr Reykjavík í Fossvoginn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á morgun.