Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, er spennt fyrir fyrsta tímabili liðsins í efstu deild og fyrsta tímabili liðs frá Austurlandi í efstu deild kvenna í fótbolta frá því Höttur var þar árið 1994.
Leikmannahópur liðsins er töluvert breyttur frá því í fyrra. Sterkir erlendir leikmenn eru horfnir á brott og aðrir komnir inn í staðinn. Liðið er m.a. búið að missa Samönthu Smith til Breiðabliks og Emmu Hawkins til Portúgals en þær voru tvær af allra bestu leikmönnum 1. deildarinnar á síðustu leiktíð.
Var Hawkins markadrottning deildarinnar með 24 mörk í 14 leikjum og Samantha Smith er nú orðin einn besti leikmaður Bestu deildarinnar eftir að hún fór í Breiðablik og hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari á síðasta ári.
„Mér líst vel á hópinn. Það er ekkert nýtt fyrir okkur að það séu miklar breytingar á milli ára, sérstaklega hjá erlendum leikmönnum. Þessir nýju eru að koma rosalega vel inn í þetta. Það var högg að missa Emmu og Sammy, sem sköruðu fram úr í fyrra.
Þær áttu stóran þátt í þessari velgengni í fyrra og það hefði verið gaman að halda þeim. Það kemur maður í manns stað og við erum með sterkan hóp. Vonandi sýna nýju leikmennirnir sömu gæði,“ sagði Rósey við mbl.is.
FHL var spáð neðsta sæti í spá Morgunblaðsins í fimmtudagsblaðinu. Liðið byrjar ævintýrið í Bestu deildinni með útileik gegn Tindastóli annað kvöld klukkan 18.