Þarf að aðlagast Valsumhverfinu

Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals í knattspyrnu, er mjög ánægð með leikmannahóp liðsins nú þegar keppni í Bestu deildinni fer senn að hefjast.

„Staðan er nokkuð góð. Það eru auðvitað einhver meiðsli hér og þar, einhver smotterísmeiðsli, en að öðru leyti er staðan góð. Við erum líka að eflast með því að fá fleiri inn á æfingar. Elín Metta [Jensen] er komin, Arna Sif [Ásgrímsdóttir] og vonandi Anna Björk [Kristjánsdóttir].

Það gefur auga leið að þetta eru stórir prófílar sem verður gott að fá inn í æfingahópinn til viðbótar við þann frábæra hóp sem við erum með fyrir. Staðan á hópnum er flott,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is.

Tekur alltaf tíma

Nokkur fjöldi leikmanna er horfinn á braut og annað eins magn hefur komið í staðinn. Spurð hvernig nýju leikmönnunum hefur gengið að aðlagast hjá Val sagði hún:

„Þær hafa komið vel inn í þetta. Það þarf auðvitað að aðlagast Valsumhverfinu, sem tekur alltaf tíma. Svo erum við sem erum búnar að vera lengur að hjálpa þeim að aðlagast þessu umhverfi.

Við gerum okkar besta í að leiðbeina þannig að þær aðlagist hratt og örugglega. Ég held að fólk sé alveg að aðlagast þokkalega.“

Valur hafnar í 2. sæti samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is sem birtist í blaðinu sl. fimmtudag. Valur fær FH í heimsókn á Hlíðarenda í fyrstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 18 annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert