Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar var eðlilega ekki ánægður með frammistöðu síns liðs í 6:1-tapi gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik komst í 5:0 á fyrstu 33 mínútum leiksins.
„Þetta var skelfileg frammistaða í fyrri hálfleik. Gegn góðu Blikaliði þýðir ekki að mæta svona til leiks.
Mér fannst við of opnar. Pressan var ekki góð og við vorum lengi að falla til baka. Við náðum aðeins að þétta raðirnar í seinni hálfleik en þurfum að spila miklu betur en þetta til að fá stig í þessari deild.
Við eigum talsvert af skotum, skorum eitt mark og ég hefði viljað víti. Við náum alveg að koma okkur fram á völlinn. Fyrst og fremst fannst mér þó varnarleikurinn fyrir neðan allar hellur,“ sagði Jóhannes við mbl.is eftir leik.
En af hverju var munurinn svona mikill?
„Hugarfar skiptir miklu máli í þessu. Blikar vinna alla bolta númer eitt og tvö og skora tvö mörk eftir föst leikatriði þar sem boltinn lendir í teignum okkar og við komum honum ekki burt. Þegar þú kemur þannig inn í leikinn fer það aldrei vel.“
Stjarnan fær Víking úr Reykjavík í heimsókn í næstu umferð. Jóhannes segir að sitt lið megi ekki dvelja við þennan leik.
„Þetta er bara einn leikur af átján og við förum ekkert að dvelja við þennan leik. Við áttum hörku undirbúningstímabil og höfum verið að spila vel. Nú þurfum við að sækja í það og minna okkur á af hverju við vorum að spila vel, því við erum með gott lið.“