Haukur Andri Haraldsson hjá ÍA og Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals voru í dag úrskurðaðir í eins leiks bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.
Haukur fékk tvö gul spjöld og þar með rautt er hann og liðsfélagar hans í ÍA máttu þola tap á útivelli gegn Stjörnunni, 2:1. Kom seinna spjaldið í uppbótartíma.
Hólmar Örn fékk einnig sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma er Valur og KR gerðu 3:3-jafntefli í rosalegum leik í gær.
Það sem verra var fyrir Hólmar var sú staðreynd að KR fékk víti fyrir brotið og jafnaði í 3:3. Leikið var á Þróttarvelli þar sem heimavöllur KR í Vesturbænum er ekki tilbúinn.
Hólmar missir af leik Vals og KA á Hlíðarenda 23. apríl og Haukur Andri verður ekki með ÍA gegn Vestra á Akranesi sama kvöld.