Var að heyra það núna

Agla María Albertsdóttir með boltann í kvöld.
Agla María Albertsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

Agla María Albertsdóttir skoraði í stórsigri Breiðabliks á Stjörnunni, 6:1, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Agla María er nýr fyrirliði Breiðabliks sem yfirspilaði Stjörnuna í fyrri hálfleik.

„Mér fannst við vera alveg frábærar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Gerum þetta svo sem vel í seinni hálfleik en þær voru aðeins þéttari þá. Mér fannst við samt halda tempóinu vel, færðum boltann vel, vorum að sækja og fengum einhver færi. Virkilega sterkt hjá okkur.

Margir leikmenn sem komu við sögu, meðal annars tvær sem komu inn á í hálfleik. Við náðum að rúlla liðinu vel sem er gott fyrir framhaldið. Heilt yfir var þetta frábær frammistaða hjá okkur,“ sagði Agla María í samtali við mbl.is. 

Gott að fá hana í grænu treyjuna aftur

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í sínum fyrsta leik fyrir liðið í Bestu deildinni í sex ár. Agla María lék þá með henni og er ánægð að fá hana aftur. 

„Ég var ekkert smá ánægð að sjá Berglindi skora. Gott að fá hana aftur í grænu treyjuna, hérna á hún bara að vera. Líka frábært fyrir hana sem framherja að fara vel af stað í markaskorun.“

Blikaliðið svarði vel fyrir tapið gegn Val í Meistarakeppni KSÍ á föstudaginn.

„Þrátt fyrir að við töpuðum þessum leik á föstudaginn fannst mér við eiga góða frammistöðu í seinni hálfleik. Við tókum margt jákvætt úr þeim leik og það sat ekkert í okkur. Gott að byrja mótið á sterkum sigri.“

Í næstu umferð heimsækir Breiðablik Þrótt sem vann nýliða Fram, 3:1, í kvöld. 

„Ég var einmitt að heyra það núna að við værum að fara spila við þær næst. Maður er svolítið í því að taka einn leik í einu. Þær eru með hörkulið og hafa fengið góða leikmenn í vetur. Ég hef ekkert mætt þeim síðan þær styrktu sig og er spennt fyrir því,“ bætti Agla María við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert