Besta deild kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld á tveimur leikjum. Íslandsmeistarar Breiðabliks og Stjarnan mætast í Kópavogi og Þróttur úr Reykjavík og Fram mætast í Laugardalnum.
Mikil eftirvænting er hvert ár fyrir Bestu deildinni en Breiðablik og Valur hafa eignað sér Íslandsmeistaratitilinn síðan 2017, eða þegar Þór/KA varð meistari.
Liðin hafa oftast verið tvö efst og svolítið á undan næstu liðum en þó sérstaklega í fyrra. Þá vann Breiðablik deildina með 61 stigi, einu stigi á undan Val. Nýliðar Víkings enduðu síðan í þriðja sæti, heilum 25 stigum á eftir Íslandsmeisturunum.
Í upphitun mbl.is fyrir Bestu deildina höfðu margir fyrirliðar liðanna trú á því að deildin yrði jafnari í ár að að fleiri lið myndu blanda sér í baráttuna ofarlega.
Lið sem undanfarin ár hafa verið aðeins á eftir þessum tveimur liðum eru búin að styrkja sig mikið, þá sérstaklega Þróttur, Þór/KA og Víkingur. Má vænta þess að þau gefi toppliðunum aðeins meiri samkeppni.
Vonandi verður deildin ennþá skemmtilegri en í fyrra en þar fengum við hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni. Skemmtilegt væri að sjá fleiri lið nálægt toppnum, því það myndi aðeins auka áhugann á deildinni.
Bakvörð Jökuls má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.