4. umferð: Skoraði tvö áfangamörk í sama leiknum

Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk gegn Víkingi.
Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk gegn Víkingi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Agla María Albertsdóttir fyrirliði Breiðabliks skoraði tvö áfangamörk í gær þegar Kópavogsliðið vann öruggan sigur á Víkingi, 4:0, í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli.

Agla María kom Blikum í 2:0 með marki úr vítaspyrnu og það var hennar 80. mark í efstu deild. Hún er 28. leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem nær þessum markafjölda og er fimmta markahæst af núverandi leikmönnum. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir er þar efst með 143 mörk, Fanndís Friðriksdóttir hefur skorað 122, Sandra María Jessen 111 og Katrín Ásbjörnsdóttir 93.

Agla María skoraði síðan þriðja mark Blika með glæsilegu langskoti og þá náðist annar áfangi. Þetta var mark númer 2.100 sem Breiðablik skorar í efstu deild frá upphafi og aðeins Valur hefur skorað fleiri mörk, eða 2.154.

Um leið fór Agla María í 81 mark og komst með því fram úr Dönku Podovac og Margréti R. Ólafsdóttur sem skoruðu 80 mörk í deildinni á sínum tíma. Hún er því komin í 26. sætið yfir þær markahæstu frá upphafi.

Halldór Jón Sigurðsson á hliðarlínunni í sínum 100. leik í …
Halldór Jón Sigurðsson á hliðarlínunni í sínum 100. leik í Bestu deild kvenna. mbl.is/Ólafur Árdal

Halldór Jón Sigurðsson stýrði liði í 100. skipti í efstu deild kvenna þegar Tindastóll sótti Þrótt heim í Laugardalinn í gær. Þar af eru 54 leikir með Þór/KA, sem varð Íslandsmeistari undir hans stjórn árið 2017, og 46 leikir með Tindastóli.

Fram vann sinn fyrsta leik í efstu deild í 37 ár þegar liðið lagði FHL að velli, 2:0, í nýliðaslag í Úlfarsárdal. Síðast vann Fram sigur á ÍBÍ frá Ísafirði, 2:0, á Framvellinum í Safamýri 12. ágúst árið 1988. Mörkin þá skoruðu Lára Eymundsdóttir og Brynhildur Þórarinsdóttir.

Freyja Karín Þorvarðardóttir er næstmarkahæsti Þróttarinn.
Freyja Karín Þorvarðardóttir er næstmarkahæsti Þróttarinn. mbl.is/Eyþór Árnason

Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði sigurmark Þróttar gegn Tindastóli, 1:0, og hún er þar með orðin næstmarkahæst í sögu Þróttar í efstu deild með 14 mörk. Hún fór upp fyrir Kötlu Tryggvadóttur, landsliðskonuna sem nú leikur með Kristianstad í Svíþjóð. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir á markamet félagsins í deildinni, 20 mörk.

Sara Svanhildur Jóhannsdóttir, sem snýr í att að myndvélinni, skoraði …
Sara Svanhildur Jóhannsdóttir, sem snýr í att að myndvélinni, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sara Svanhildur Jóhannsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún gerði fyrra mark Fram í sigrinum á FHL. Þetta var aðeins hennar þriðji leikur í deildinni, sá fyrsti var fyrir Breiðablik og svo eru komnir tveir með Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert