„Rússíbanareið“ í Kópavogi í kvöld

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks í Bestu deild karla í fótbolta, segir leik kvöldsins gegn KR hafa verið rússíbanareið.

Lokatölur leiksins voru 3:3, en eftir markalausan fyrri hálfleik komst Breiðablik í 2:0, en stuttu síðar skoruðu KR-ingar þrjú mörk með stuttu millibili og komust því í stöðuna 3:2 áður en Blikar jöfnuðu metin að nýju.

Flugeldasýning fyrir áhorfendur 

Halldór segir sín fyrstu viðbrögð eftir leik vera blendin. „Þetta var rússíbanareið þessi leikur. Heilt yfir fannst mér við spila mjög vel og vera góð tök á þessu. Svo missum við forskotið úr höndunum okkar en gerum vel í að sækja stig hérna í lokin.

Ef ég sæti hérna upp í stúku sem áhorfandi hefði ég bara sagt frábær leikur, rosalega gaman, en sem þjálfari þá þurfum við aðeins að skoða frammistöðuna seinni partinn í seinni hálfleik.“

Breiðablik og KR gerðu jafntefli í æsispennandi leik í Bestu …
Breiðablik og KR gerðu jafntefli í æsispennandi leik í Bestu deild karla í kvöld. mbl.is/Eyþór

Skemmtilegt að mæta Óskari

Í leiknum mættust fyrrverandi samstarfsfélagarnir Halldór og Óskar Hrafn, en þeir þjálfuðu bæði Gróttu og Breiðablik saman. Halldór segir það hafa verið skemmtilegt að mæta Óskari í kvöld. 

„Það var mikið fjör. Við vissum það alveg að einhverju leyti að leikurinn yrði mjög opinn og skemmtilegur. Við bara tókum þátt í þeim dansi og ég held að við höfum gert það vel. En þegar þeir bara beita fleiri löngum boltum, vinna seinni bolta og koma með krossa inn í teiginn fannst mér við geta gert betur.“

Stoltur af þeim sem hann þjálfaði 

Ásamt því að hafa þjálfað með Óskari um nokkurt skeið þjálfaði Halldór lengi í yngri flokkum KR og þekkir hann því vel til nokkurra þeirra uppöldu leikmanna sem nú hafa fengið tækifæri með meistaraflokki. 

Aðspurður segist Halldór stoltur af þeim, en einhverja þeirra þjálfaði hann frá tíu ára aldri. 

„Maður er bara stoltur af þessum strákum og kannski sér í lagi þeim sem hafa farið Krýsuvíkurleiðina í efstu deild, farið í neðri deildirnar og eru að uppskera núna,“ segir Halldór. 

„Akkúrat núna hefði ég nú auðvitað bara viljað vinna þá en þeir eru nokkrir í KR-liðinu sem ég þekki ansi vel. Þannig að þetta voru alls konar tilfinningar en heilt yfir skemmtilegur leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert