Breiðablik og KR gerðu 3:3 jafntefli í gífurlega fjörugum leik í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
Með jafnteflinu færist Breiðablik úr öðru sæti deildarinnar niður í það þriðja, en KR klýfur upp út fimmta sætinu í það fjórða.
Eftir markalausan en skemmtilegan fyrri hálfleik þar sem báðum liðum tókst að gera sig líkleg til þess að skora opnuðu Blikar markareikninginn í upphafi seinni háfleiks með marki frá Tobiasi Thomsen á 54. mínútu.
Sex mínútum síðar var bætti Thomsen við sínu öðru marki og kom Breiðabliki í tveggja marka forystu.
Einungis örfáum mínútum síðar snéru KR-ingar blaðinu við og svöruðu rækilega fyrir sig með þremur mörkum á fimmtán mínútna kafla.
Fyrst minnkaði Eiður Gauti Sæbjörnsson muninn á 67. mínútu í 2:1 og fjórum mínútum síðar jafnaði Jóhannes Kristinn Bjarnason metin. Staðan 2:2 eftir 80 mínútna leik og allt í járnum á Kópavogsvelli.
Það var síðan Finnur Tómas Pálmason sem kom KR-ingum yfir á 81. mínútu og þannig stóðu leikar þar til á 92. mínútu þegar Kristófer Ingi Kristinsson komst einn í gegnum vörn KR og jafnaði metin eftir að hafa komið inn á sem varamaður einungis fjórum mínútum fyrr. Lokatölur 3:3 og dramatíkin allsráðandi í Kópavogi fram á síðustu sekúndu.