5. umferð: Tvöfalt hjá Túfa, Sigurður þriðji og Aron í 200. deildaleik

Vladimir Tufegdzic, til hægri, í baráttunni gegn ÍBV í Eyjum …
Vladimir Tufegdzic, til hægri, í baráttunni gegn ÍBV í Eyjum á sunnudaginn. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Vladimir Tufegdzic, serbneski framherjinn hjá Vestra, náði tvöföldum áfanga þegar Vestfjarðaliðið lagði ÍBV að velli, 2:0, í 5. umferð Bestu deildar karla í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.

Vladimir lék þar sinn 100. leik í efstu deild hér á landi en hann lék 53 leiki með Víkingi R., 8 með KA og 12 með Grindavík áður en hann gekk til liðs við Vestra. Þetta er hans ellefta tímabil hér á landi en Vladimir hefur auk hundrað leikjanna í efstu deild leikið 67 leiki í 1. deild.

Og um leið varð Vladimir leikjahæstur í sögu Vestra í efstu deild með 27 leiki. Benedikt V. Warén, William Eskelinen og Silas Dylan Songani deildu metinu með honum fyrir leikinn en þeir Benedikt og William fóru eftir síðasta tímabil og Silas kom ekki við sögu í leiknum í Eyjum.

Sigurður Egill Lárusson er skammt frá leikjameti Valsmanna í efstu …
Sigurður Egill Lárusson er skammt frá leikjameti Valsmanna í efstu deild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Egill Lárusson er orðinn þriðji leikjahæstur í efstu deild karla hjá Val frá upphafi. Hann lék sinn 241. leik fyrir félagið í deildinni í tapinu gegn FH, 3:0, og fór með því upp fyrir Sigurbjörn Hreiðarsson sem lék 240 leiki fyrir Val í deildinni.

Sigurður er með tvo efstu menn í sigtinu því leikjamet Hauks Páls Sigurðssonar er 248 leikir og Bjarni Ólafur Eiríksson er annar með 244 leiki í deildinni.

Aron Þórður Albertsson, til hægri, í baráttu gegn Valsmönnum í …
Aron Þórður Albertsson, til hægri, í baráttu gegn Valsmönnum í vor. mbl.is/Eyþór Árnason

Aron Þórður Albertsson, miðjumaður KR, lék í gærkvöld sinn 200. deildaleik á ferlinum í 3:3-jafnteflinu gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Þar á hann einmitt rætur, Aron lék með Blikum í yngri flokkum en hóf hins vegar meistaraflokksferilinn í Fram.

Hann hefur leikið 95 leiki í efstu deild og 105 leiki í 1. deild en í millitíðinni lék Aron með HK og Þrótti R, og síðan aftur með Fram áður en hann fór í KR fyrir tímabilið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert