Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og þýsku meistaranna Bayern München, er ekki sátt við tímasetninguna á Evrópumótinu í Sviss í sumar.
Ísland leikur þar fyrst gegn Finnlandi 2. júlí, síðan gegn Sviss 6. júlí og Noregi 10. júlí, og mótinu lýkur 27. júlí.
„Það er skrýtið sumar fram undan því í júní er ekkert að gerast og enn og aftur eru kvennamótin sett á asnalegan tíma. Í staðinn fyrir að hafa EM strax eftir að tímabilinu lýkur, í júní, þá missir maður í raun af sumarfríinu sínu sem hefði þurft að koma einhvers staðar.
Maður fer ekki í frí í júní og ætlar svo bara að mæta í byrjun júlí og spila á EM. Þetta virkar ekki þannig, maður verður fyrir vikið að halda sér í standi allan júnímánuð og vera klár þegar mótið byrjar.
Það verður heldur ekki mikill tími fyrir hvíld eftir EM en hvað sem þessu líður er ég mjög spennt fyrir mótinu og geri mitt allra besta til að geta staðið mig sem best fyrir Ísland í júlí,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir við Morgunblaðið.
Ítarlegt viðtal er við Glódísi Perlu í Morgunblaðinu í dag og það er einnig aðgengilegt í appinu Mogginn.