Sandra með þrennu á Reyðarfirði

Sandra María Jessen skoraði fyrsta markið í Fjarðabyggðarhöllinni í kvöld.
Sandra María Jessen skoraði fyrsta markið í Fjarðabyggðarhöllinni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sandra María Jessen skoraði þrennu í kvöld þegar Þór/KA sigraði FHL, 5:2, í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í Fjarðabyggðar höllinni á Reyðarfirði.

Þór/KA er þá komið með 9 stig eftir fimm leiki en FHL er enn án stiga á botni deildarinnar.

Sonja Sigurðardóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir skoruðu hin mörk Akureyrarliðsins en Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir og Aida Kardovic skoruðu fyrir FHL. Bríet Jóhannsdóttir, varnarmaður Þórs/KA, fékk rauða spjaldið á 76. mínútu þegar staðan var 4:1.

Gestakonur byrjuðu leikinn snemma og settu fyrsta markið á 15. mínútu. Eftir mikið vesen í teignum hrökk boltinn af Margréti Árnadóttur fyrir fyrirliðann Söndru Maríu Jessen sem átti frábært skot í nær hornið, 1:0 fyrir Þór/KA.

Þór/KA bætti í forystuna aðeins sekúndum seinna. Bríet Jóhannsdóttir lék á tvo varnarmenn FHL og kom með fyrirgjöfina beint á Sonju Björg Sigurðardóttur sem fékk þægilegt verkefni við að leggja boltann í netið og staðan orðin 2:0.

Það var rólegur kafli áður en Karen María Sigurgeirsdóttir kom Þór/KA í 3:0, á 37. mínútu. Karen var alveg opin fyrir utan teig og átti skot sem lenti í slánni og yfir línuna. Gestakonur höfðu ekki hugmynd að þær hefðu skorað fyrr en dómarinn gaf markið skömmu seinna.  

Heimakonur náðu að minnka muninn í 3:1 á 45. mínútu þegar Hrafnhildur Eik Reimarsdóttir átti skot fyrir utan teig sem söng í fjærhorninu eftir að boltinn fór yfir Jessicu Berlin í marki Þór/KA. 

Á 60. mínútu skoraði Sandra María sitt annað mark í leiknum eftir frábæran einleik inn á teignum og þrumaði svo boltanum í nærhornið. Óverjandi fyrir Keelan Terrell í marki FHL, 4:1.

Á 78. mínútu vann Björg Gunnlaugsdóttir boltann og slapp í gegn. Bríet felldi hana og fékk rautt spjald og FHL fékk vítaspyrnu. Aida Kardovic þrumaði boltanum í hægra hornið og minnkaði muninn í 4:2.  

Björg komst aftur ein í gegn og átti möguleika að minnka forystuna í eitt mark en skotið var framhjá. 

Á 85. mínútu fullkomnaði Sandra þrennuna eftir frábæra afgreiðslu inn í markteig FHL. Hulda Ósk Jónsdóttir hljóp upp hægri vænginn og kom með fyrirgjöf beint á Söndru sem kláraði færið. Ekki vantaði fjörið fyrir austan og 5:2 sigur niðurstaðan eftir 90 mínútur.  

FHL 2:5 Þór/KA opna loka
90. mín. 5. mínútum bætt við í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka