6. umferð: Tvö met Eiðs Smára fallin – Björn orðinn þriðji

Alexander Rafn Pálmason fagnar markinu gegn ÍBV.
Alexander Rafn Pálmason fagnar markinu gegn ÍBV. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Alexander Rafn Pálmason er orðinn yngsti markaskorari efstu deildar karla í fótbolta og þeir Björn Daníel Sverrisson og Nikolaj Hansen færðust ofar á listum yfir leikjahæstu menn sinna félaga þegar 6. umferð deildarinnar lauk í gærkvöld. 

Alexander skoraði fyrsta mark KR í sigrinum á ÍBV, 4:1, á laugardaginn, aðeins 15 ára og 33 daga gamall. Fyrra metið átti Eiður Smári Guðjohnsen en hann skoraði 15 ára og 253 daga gamall fyrir Val í deildinni árið 1994.

Alexander Rafn á líka metið sem yngsti leikmaður deildarinnar en það setti hann á síðasta tímabili þegar hann lék 14 ára og 147 daga gamall með KR gegn ÍA. Samherji hans, Sigurður Breki Kárason, varð fyrr í vor yngsti byrjunarliðsmaður deildarinnar, 15 ára og 125 daga gamall, og hann tók þá líka met af Eiði Smára.

Björn Daníel Sverrisson lék sinn 241. leik fyrir FH í efstu deild gegn Víkingi í gærkvöld og er þar með orðinn þriðji leikjahæstur í sögu Hafnarfjarðarliðsins. Hann fór fram úr Davíð Þór Viðarssyni sem lék 240 leiki. Metið á Atli Guðnason, 285 leikir, og síðan kemur Atli Viðar Björnsson með 264 leiki.

Björn Daníel Sverrisson í Víkinni í gærkvöld.
Björn Daníel Sverrisson í Víkinni í gærkvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Nikolaj Hansen lék sinn 150. leik fyrir Víking í efstu deild gegn FH í gærkvöld. Hann er sjötti leikmaðurinn í sögu Víkings sem nær þeim leikjafjölda.

Nikolaj Hansen - 150 leikir í deildinni með Víkingi.
Nikolaj Hansen - 150 leikir í deildinni með Víkingi. mbl.is/Eyþór Árnason

Viktor Jónsson skoraði sitt 40. mark í efstu deild þegar Skagamenn steinlágu fyrir Val, 6:1, á laugardagskvöldið. Mörkin eru 35 fyrir ÍA og fimm fyrir Víking.

Viktor Jónsson í leiknum gegn Val.
Viktor Jónsson í leiknum gegn Val. mbl.is/Birta Margret

Patrick Pedersen bætti við tveimur mörkum fyrir Val í stórsigrinum gegn ÍA og hefur nú skorað sex mörk í jafnmörgum leikjum á tímabilinu. Hann er kominn með 122 mörk í efstu deild og er níu mörkum frá markameti Tryggva Guðmundssonar.

Þessir eru markahæstir eftir sex umferðir:

6 Patrick Pedersen, Val
5 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
4 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
4 Tobias Thomsen, Breiðabliki
3 Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki
3 Jónatan Ingi Jónsson, Val
3 Kennie Chopart, Fram
3 Luke Rae, KR
3 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
3 Viktor Jónsson, ÍA
3 Örvar Eggertsson, Stjörnunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert