Þróttur vann níu marka leik

Þróttarkonur fagna einu af þremur mörkum Þórdísar Elvu Ágústsdóttur.
Þróttarkonur fagna einu af þremur mörkum Þórdísar Elvu Ágústsdóttur. mbl.is/Karítas

Þróttur úr Reykjavík vann sannfærandi sigur á Víkingi úr Reykjavík í níu marka leik, 6:3, í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Þróttarvelli í Laugardalnum í kvöld. 

Þróttur er áttunda liðið til að komast í átta liða úrslitin en hin eru Breiðablik, Þór/KA, Tindastóll, Valur og FH úr Bestu deildinni og ÍBV og HK úr 1. deildinni. 

Þórdís Elva Ágústsdóttir átti stórleik en hún skoraði fyrstu þrjú mörk Þróttar í fyrri hálfleik en staðan var einmitt 3:0 eftir hann. 

Í seinni hálfleik voru hins vegar skoruð sex mörk en Brynja Rán Knudsen kom Þrótti í 4:0 á 46. mínútu og Unnur Dóra Bergsdóttir kom liðinu í 5:0 á 57. mínútu. 

Dagný Rún Pétursdóttir og Bergdís Sveinsdóttir skoruðu hins vegar tvö mörk á tveimur mínútum og minnkuðu muninn fyrir Víking, 5:2, á 60. og 62. mínútu. 

Sigríður Theód. Guðmundsdóttir kom Þrótti í 6:2 þremur mínútum síðar en fjórum mínútum eftir það minnkaði Ísfold Marý Sigtryggsdóttir muninn í þrjú mörk á nýjan leik, 6:3. 

Eftir það var þó ekki meira skorað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert