Stjarnan slapp fyrir horn gegn Kára

Oskar Wasilewski varnarmaður Kára reynir að stöðva Benedikt V. Warén …
Oskar Wasilewski varnarmaður Kára reynir að stöðva Benedikt V. Warén kantmann Stjörnunnar í Akraneshöllinni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Stjarnan lenti í miklum vandræðum með 2. deildarlið Kára í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í Akraneshöllinni í kvöld.

Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og 2:2 eftir framlengingu en í vítaspyrnukeppni náði Stjarnan að knýja fram sigur og sæti í átta liða úrslitunum.

Þar var Akurnesingurinn Árni Snær Ólafsson í marki Stjörnunnar í stóru hlutverki í sínum heimabæ því hann varði bæði þriðju og fjórðu vítaspyrnu Kára og tryggði Stjörnunni áframhald í keppninni.

Daníel Finns Matthíasson og Matthías Daði Gunnarsson eigast við í …
Daníel Finns Matthíasson og Matthías Daði Gunnarsson eigast við í Akraneshöllinni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Benedikt V. Warén kom Stjörnunni yfir á 41. mínútu leiksins með fallegu skoti en Hektor Bergmann Garðarsson jafnaði fyrir Kára 20 mínútum fyrir leikslok, nýkominn inn á sem varamaður. Hektor er bróðursonur Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfara.

Staðan var því 1:1 og framlengja þurfti leikinn. Undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar skoraði Adolf Daði Birgisson fyrir Garðbæinga.

Árni Snær Ólafsson ver skot í marki Stjörnunnar í kvöld.
Árni Snær Ólafsson ver skot í marki Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Allt stefndi í að það yrði sigurmark hjá Stjörnunni en þegar þrjár mínútur voru eftir af framlengingunni jafnaði Mikael Hrafn Helgason metin í 2:2.

Þar með þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni og þar þar tók Árni Snær til sinna ráða eins og áður sagði og Stjarnan vann hana 4:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert