Viktor Karl Einarsson fyrirliði Breiðabliks í knattspyrnu var svekktur með tap í bikarnum á móti Vestra í kvöld. Mbl.is tók Viktor Karl í viðtal strax eftir leik.
Sárt tap á móti Vestra í kvöld. Blikar sýna mikinn baráttuvilja þegar þeir reyna að jafna leikinn í tvígang en það tókst ekki. Hvað veldur því?
„Þú talar um mikla baráttu. Ég hefði viljað sjá enn þá meiri baráttu og enn þá meiri grimmd í návígi við þá og í lausum boltum. Við erum búnir að grafa okkur ofan í holu, 1:0 undir í fyrri hálfleik. Komum sterkir til baka og jöfnum á heimavellinum okkar. Þá eigum við ekki að geta misst það niður eins og við gerum í kvöld. Þetta er alltof auðvelt mark sem þeir skora og við erum bara eftir á. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og laga.“
Þið láguð þungt á Vestra undir lok leiksins með það að markmiði að jafna leikinn. Hvað vantaði upp á hjá þínu liði?
„Í rauninni fannst mér við gera nóg til að skora. Hann ver frábærlega undir lokin. Við búum til fullt af stöðum til að skora. Við hefðum átt að geta nýtt þessar stöður betur til að skora. Þetta dugði bara ekki í dag.“
Í lok leiksins fara þeir að beita skyndisóknum þegar þið farið að taka meiri sénsa og eruð opnari. Þá kemst Silas Dylan Songani einn inn fyrir vörn Blika sem virðast vera þreyttir og ná ekki að elta hann uppi. Voru Blikar sprungnir?
„Það var alveg komin þreyta en ég vil ekki meina að við höfum verið sprungnir. Hann er hins vegar með ferska fætur þarna og nýkominn inn á. Hann er líka alveg öskufljótur.“
Næsti leikur er á móti Val í deildinni. Enginn bikar í boði lengur og bara Íslandsmeistaratitillinn eftir. Er þá leikurinn við Val ekki skyldusigur?
„Já, það er Valur á mánudag. Þannig að nú höfum við kvöldið í kvöld til að vera svekktir og síðan er það bara undirbúningur fyrir Val á mánudag og það er skyldusigur jú,“ sagði Viktor Karl í samtali við mbl.is.