Fram tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að leggja ríkjandi bikarmeistara KA að velli, 4:2, í 16-liða úrslitum á Akureyri.
Fram kemur sér þar með í hóp Stjörnunnar, Vals, Keflavíkur, ÍBV, Aftureldingar og Þórs frá Akureyri sem eru öll komin í átta liða úrslit. Leikur Breiðabliks og Vestra er nú í gangi.
Leikurinn á Akureyri hófst með látum þar sem Fred Saraiva klúðraði vítaspyrnu eftir aðeins þriggja mínútna leik.
Fimm mínútum síðar kom Hallgrímur Mar Steingrímsson bikarmeisturum KA í forystu.
Á 21. mínútu jafnaði Róbert Hauksson metin fyrir Fram og hann sneri svo taflinu við á 34. mínútu.
Áður en fyrri hálfleikurinn var úti kom Kyle McLagan Frömurum í 3:1 og þannig stóðu leikar í leikhléi.
Varamaðurinn Birgir Baldvinsson minnkaði muninn fyrir KA snemma í síðari hálfleik en fimm mínútum síðar, á 58. mínútu, varð Hans Viktor Guðmundsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark og kom þannig Fram aftur í tveggja marka forystu, 4:2.
Reyndust það lokatölur og þátttöku bikarmeistaranna því lokið.