Heldur bikarsigurgangan á KA-vellinum áfram?

Bjarni Aðalsteinsson í leik KA og Fram í fyrra þar …
Bjarni Aðalsteinsson í leik KA og Fram í fyrra þar sem hann skoraði tvö mörk. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sextán liða úrslitunum í bikarkeppni karla í fótbolta lýkur í kvöld og þar kemur m.a. í ljós hvort sigurganga ríkjandi bikarmeistara KA á heimavelli haldi áfram.

KA-menn höfðu heppnina með sér í bikardrætti síðasta tímabils því þeir léku alla fjóra leikina frá 32-liða úrslitum til undanúrslita á heimavelli sínum á Akureyri. Þeir unnu alla fjóra, gegn ÍR, Vestra, Fram og Val, og sigruðu svo Víking óvænt, 2:0, í úrslitaleiknum á Laugardalsvellinum.

Þar á undan léku þeir bæði í átta liða úrslitum og undanúrslitum keppninnar á heimavelli árið 2023, sigruðu þá Grindavík og Breiðablik, og hafa því spilað sjö síðustu leiki í útsláttarkeppni á heimavelli, og unnið þá alla.

Þeir drógust enn og aftur á heimavöll í 32-liða úrslitunum í ár þegar þeir unnu 2. deildarlið KFA, 4:0, og leika í kvöld þann áttunda í röð á KA-vellinum þegar þeir taka á móti Fram klukkan 18.

KA vann Fram einmitt 3:0 í átta liða úrslitunum í fyrra þar sem Bjarni Aðalsteinsson skoraði tvö mörk og Hallgrímur Mar Steingrímsson eitt. 

Í hinum leik kvöldsins mætast Breiðablik og Vestri en sá leikur hefst á Kópavogsvelli klukkan 19.30. Breiðablik er eina liðið sem hefur unnið Vestra í Bestu deildinni í ár, 1:0 á Ísafirði með marki Höskuldar Gunnlaugssonar, en liðin eru þar á toppnum ásamt Víkingum með 13 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert