Vestri sló Íslandsmeistarana úr leik

Leikmenn Vestra fagna marki Daða Bergs Jónssonar með tilvísun í …
Leikmenn Vestra fagna marki Daða Bergs Jónssonar með tilvísun í lagið Róa, framlag Íslands í Eurovision. mbl.is/Karítas

Breiðablik og Vestri áttust við á Kópavogsvelli í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ í kvöld og lauk leiknum með sigri Vestra 2:1. Vestri er því kominn áfram í 8 liða úrslit bikarkeppninnar.

Heimamenn úr Breiðabliki voru mun líklegri framan af í fyrri hálfleik og hótuðu marki í tvígang á 15. og 18. mínútu leiksins. Á 15. mínútu átti Aron Bjarnason stórkostlegt skot í þverslána. Sannkallað dauðafæri.

Vestri komst hins vegar yfir gegn gangi leiksins á 25. mínútu leiksins þegar Gunnar Jónas Hauksson kom boltanum yfir marklínuna eftir mikið bras í vítateig Breiðabliks. Staðan var 1:0 fyrir Vestra.

Ágúst Orri Þorsteinsson átti frábært skot að marki Vestra á 28. mínútu en Benjamin Schubert varði vel í horn. Á 42. mínútu skoruðu Vestramenn mark sem dæmt var af réttilega vegna rangstöðu.

Síðasta færi fyrri hálfleiks kom síðan á 43. mínútu þegar Daði Berg Jónsson komst einn inn fyrir vörn Breiðabliks en Brynjar Atli Bragason mætti honum vel og lokaði á skot hans í sannkölluðu dauðafæri.

Staðan var 1:0 fyrir Vestra í hálfleik.

Breiðablik jafnaði leikinn í byrjun seinni hálfleiks. Það gerði Tobias Thomsen eftir fyrirgjöf frá Aroni Bjarnasyni. Staðan var 1:1.

Adam var ekki lengi í paradís eins og segir einhvers staðar því leikmenn Vestra voru ekki lengi að komast aftur yfir þegar Daði Berg Jónsson skoraði eftir sendingu frá Arnóri Borg Guðjohnsen. Staðan var 2:1 fyrir Vestra.

Breiðablik sótti hart á Vestra og tók talsverða áhættu með því að spila djarft fram á við en lið Vestra var ansi þétt og Blikar voru í mestu vandræðum með að finna leiðir í gegnum vörn gestanna.

Breiðablik reyndi allt hvað það gat til að jafna leikinn og lágu Blikar mjög þungt á Vestra síðustu mínútur leiksins. Þegar 3 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma var Ásgeir Helgi Orrason ansi nálægt því að skora þegar Benjamin Schubert varði skalla frá honum.

Lengra komust Blikarnir ekki og fór leikurinn 2:1 fyrir Vestra.

Breiðablik 1:2 Vestri opna loka
90. mín. Gustav Kjeldsen (Vestri) fær gult spjald Stoppar skyndisókn Blika.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert