Breiðablik er með þriggja stiga forskot á toppi Bestu deildar kvenna í fótbolta eftir heimasigur á Val, 4:0, í 6. umferðinni á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik er með 16 stig, þremur meira en FH og Þróttur sem mætast á morgun. Valur er í fimmta sæti með sjö stig.
Blikar byrjuðu eins vel og hægt er því Agla María Albertsdóttir skoraði fyrsta markið eftir tæpa mínútu með hnitmiðuðu skoti utan teigs eftir takta á vinstri kantinum.
Næstu mínútur voru frekar rólegar og lítið um opin færi. Það breyttist á 36. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir tvöfaldaði forskotið með skoti af stuttu færi í teignum eftir að Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Vals varði frá Elínu Helenu eftir horn.
Berglind fékk gott færi til að skora sitt annað mark og þriðja mark Breiðabliks er hún fékk boltann í teignum frá Öglu Maríu á 40. mínútu en lagði hann framhjá.
Aðeins þremur mínútum síðar var hún búin að bæta upp fyrir það með þriðja markinu. Elísa Viðarsdóttir hreinsaði þá boltann í Berglindi í teignum sem þakkaði fyrir sig og renndi boltanum í netið. Voru hálfleikstölur því 3:0.
Breiðablik var sterkari aðilinn framan af í seinni hálfleik og Agla María fékk tvö fín færi til að skora en Tinna gerði vel í markinu. Hinum megin átti Fanndís Friðriksdóttir tvær fínar tilraunir en Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks var vandanum vaxin.
Blikar skoruðu svo fjórða markið á 73. mínútu þegar Karitas Tómasdóttir skoraði með bakinu eftir hornspyrnu frá Öglu Maríu. Reyndist það síðasta mark leiksins.