„Það er ánægjulegt að sjá að Berglind Björg er að komast hægt og rólega í gang,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.
Ísland mætir Frakklandi og Noregi í lokaleikjum sínum í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar en leikurinn gegn Noregi fer fram þann 30. maí í Þrándheimi á meðan leikurinn gegn Frakklandi fer fram 3. júní á Laugardalsvelli.
Berglind Björg hefur skorað fimm mörk í fimm leikjum fyrir Breiðablik í Bestu deildinni í sumar en hún er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni.
„Það er alltaf gott þegar leikmenn stíga upp og það er mikið gleðiefni fyrir mig sem landsliðsþjálfara,“ sagði Þorsteinn þegar hann ræddi um Berglindi Björgu sem var um tíma framherji númer eitt hjá íslenska landsliðinu.
„Ég vil að leikmenn sýni frammistöður sem ýti við mér og kalli á það að þeir geti snúið aftur í landsliðið,“ sagði Þorsteinn sem var því næst spurður að því hvort Berglind Björg kæmi til greina í lokahópinn fyrir Evrópumótið í Sviss sem fram fer í júlí í sumar.
„Klárlega. Ef hún heldur áfram að bæta sig þá á hún klárlega möguleika á því,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.