Skilur ekkert í Völsurum

Leikmenn Breiðabliks fagna marki frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í kvöld. mbl.is/Karítas

„Við vorum yfir á öllum sviðum í kvöld,“ sagði Agla María Albertsdóttir fyrirliði Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir stórsigur á Val, 4:0, í 6. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við hreyfðum boltann vel, keyrðum á bakverðina, sem var uppleggið, og það gekk allt upp sem við lögðum upp með,“ sagði Agla María.

Hún skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmar 50 sekúndur. „Eina sem ég hugsaði um var að keyra á manninn. Við vorum búnar að ræða um það í vikunni að keyra á bakverðina og það er það sem fór í gegnum hausinn á mér.“

Valur og Breiðablik spiluðu hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en yfirburðir Breiðabliks voru töluverðir í kvöld.

„Þær spiluðu 120 mínútur á mánudaginn og það spilar eflaust inn í. Auðvitað er mikið að vinna þær 4:0 en þetta er samt jafnari deild en áður, þetta eru ekki bara Valur og Breiðablik,“ sagði Agla María.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í kvöld. Valur ákvað að rifta samningi við hana eftir síðustu leiktíð og hún lét sitt gamla lið finna fyrir því.

„Ég skil ekkert í því en ég er mjög ánægð. Hún er markaskorari af guðs náð. Hún er algjör gammur inni í teignum. Það er frábært að vera með hana og ég skil ekkert í þeim, ég viðurkenni það,“ sagði hún.

Agla María er komin aftur í landsliðið eftir nokkra fjarveru og verður með liðinu er það spilar við Noreg á útivelli og Frakklandi á heimavelli í næsta mánuði.

„Við Steini töluðum saman. Ég verð í þessu verkefni og svo bíðum við og sjáum hvað gerist,“ sagði Agla María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert