Við vorum ógeðslega lélegar

Það gekk lítið hjá Fanndísi Friðriksdóttur og stöllum í kvöld.
Það gekk lítið hjá Fanndísi Friðriksdóttur og stöllum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það vantaði allt hjá okkur,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir 4:0-skell gegn Breiðabliki í 6. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við mættum ekki til leiks í fyrri hálfleik og það vantaði alla baráttu. Við vorum ógeðslega lélegar. Þetta er í annað sinn í sumar sem við fáum á okkur mark á fyrstu mínútunum. Við þurfum að hugsa okkar gang,“ bætti hún við.

Valur hefur tapað þremur leikjum í röð í deildinni í fyrsta skipti í ansi langan tíma.

Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld.
Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Karítas

„Þetta er staða sem við höfum ekki verið í hjá Val í langan tíma. Ég er ekki með svarið við því hvað er að akkúrat núna. Við þurfum að grafa djúpt,“ sagði hún.

Fanndísi finnst munurinn á liðunum í kvöld ekki vera raunverulegi munurinn á milli þessara liða.

„Við sýndum það stuttu fyrir mótið. Þá sýndum við þeim góðan leik. Vissulega eru þær samt skrefinu á undan í sínu prógrammi. Munurinn á ekki að vera svona mikill,“ sagði hún.

En hvernig rífur maður sig upp úr svona erfiðri stöðu, þegar maður er vanur því að gera fátt annað en að vinna á ferlinum?

„Ég kann ekki að vera í svona stöðu og ég þarf að finna það út,“ sagði Fanndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert