Með yfirveguðum leik í bland við gott skipulagt náðu Tindastólskonur að vinna öruggan 4:1 sigur á Víkingum þegar liðin mættust í Víkinni í efstu deild kvenna í fótbolta í dag þar sem Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði tvö mörk. Það þýðir að Víkingskonur fara niður í 9. sætið en Tindastóll upp í það sjöunda.
Fjörið byrjaði strax. Víkingar sóttu meira en sofnuðu á verðinum á 2. mínútu þegar Elísa Bríet Björnsdóttir náði lúmsku skoti af vítateigslínunni og boltann sveif yfir Sigurborgu í marki Víkinga í vinstra hornið.
Á 4. mínútu jöfnuðu Víkingskonur eftir að gestunum frá Sauðárkróki tókst ekki að hreinsa frá eftir horn, boltinn barst út í teig þar sem Bergþór Sól Ásmundsdóttir kom á siglingu rétt fyrir innan vítateigslínuna og þrumaði upp í þaknetið.
Fjörið var byrjað, Víkingar sóttu meira og söfnuðu hornspyrnu, voru komnar með 6 slíkar án þess þó að skora en komust næst því á 5. mínútu þegar boltinn hrökk út í teig eftir enn eitt hornið og Erna Guðrún Magnúsdóttir þrumaði rétt yfir markið.
Þar með er ekki að Tindastóls-konur gerðu ekki sitt, áttu snöggar sóknir og á 16. mínútu átti Birgitta Rún Finnbogadóttir frábæra sendingu inn fyrir vörn Víkinga, þar átti Makala Woods góðan sprett og komst fram fyrir varnamenn Víkinga og ýtti boltanum í hægra hornið. Staðan 1:2.
Næsta góða færið var Tindastóls en kom ekki fyrr en á 37. mínútu þegar Birgitta Rún skallaði boltanum ofan á slá Víkinga af stuttu færi.
Framan af síðari hálfleik var mest um baráttu en minna um færi, það vantaði aðeins uppá.
Á 61. mínútu kom síðan mark. Þá hafði Makala pressað rækilega á vörn Víkinga en boltinn barst síðan á Birgittu Rún, sem gerði sér lítið fyrir og skaut úr miðjum vítateig hægra megin boltanum neðst í vinstri stöngina og inn í markið. Staðan orðin 1:3.
Á 70. mínútu kom svo annar skellur fyrir Víkinga þegar Hrafnhildur Salka smeygði boltanum í gegnum vörn Víkinga á Elísu Bríet, sem lét á markmann Víkinga og skaut svo úr þröngri stöðu framhjá varnarmönnum Víkinga, sem reyndu að vera fyrir. Staðan 1:4.
Í næsta leik þarf Víkingur að sækja Val heim að Hlíðarenda en Tindastóll mætir Fram syðra.