Stjarnan vann í dag sterkan sigur á FHL í sjöttu umferð efstu deildar kvenna í fótbolta en leikið var í Garðabænum. Leiknum lauk með 1:0 sigri heimakvenna.
Eftir leikinn er Stjarnan í 5. sæti með níu stig en FHL er án stiga á botni deildarinnar.
Það var lítið sem gerðist framan af leik en heimakonur voru þó alltaf með yfirhöndina án þess þó að skapa sér mörg færi. Á 20. mínútu fékk Andrea Mist Pálsdóttir boltann vel fyrir utan teig og lét vaða að marki. Skotið var frábært og small í þverslánni og var Andrea óheppin að koma heimakonum ekki yfir.
Eina mark leiksins kom þegar klukkan sló 45 mínútur. Þá fékk Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir boltann úti vinstra megin. Úlfa leitaði inn á völlinn og lét vaða að marki og endaði boltinn í fjærhorninu, óverjandi fyrir Keelan Terrell í marki FHL.
Heimakonur áttu annað skot sitt í tréverkið í leiknum á 70. mínútu þegar Fanney Lísa Jóhannesdóttir komst nálægt því að skora. Hún kom þá inn á völlinn frá hægri og lét vaða með vinstri fæti en skot hennar small í stönginni.
Meira var ekki skorað og fögnuðu heimakonur sigri í blíðunni í Garðabænum.