Berglind Björg Þorvaldsdóttir hækkar enn á markalista efstu deildar kvenna í knattspyrnu og sá stóri áfangi náðist í sögu Þróttar að leikmaður lék sinn 100. leik fyrir félagið í efstu deild í sjöttu umferð Bestu deildarinnar.
Berglind skoraði tvívegis í 4:0 sigri Breiðabliks gegn Val á föstudagskvöldið. Hún hefur þar með skorað sjö mörk í fyrstu sex umferðum deildarinnar og markahæst.
Hún komst jafnframt með þessu í sjötta til sjöunda sæti yfir markahæstu konur efstu deildar frá upphafi. Berglind hefur nú skorað 148 mörk í 209 leikjum í deildinni fyrir Breiðablik, Val, Fylki og ÍBV.
Berglind jafnaði þar með við Hrefnu Huld Jóhannesdóttur sem skoraði 148 mörk í 177 leikjum fyrir KR, ÍBV, Breiðablik og Aftureldingu á árunum 1995 til 2011.
Markahæstu konurnar:
269 Olga Færseth
207 Margrét Lára Viðarsdóttir
181 Harpa Þorsteinsdóttir
154 Ásta B. Gunnlaugsdóttir
154 Helena Ólafsdóttir
148 Hrefna Huld Jóhannesdóttir
148 Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Sóley María Steinarsdóttir varð í gær fyrsti Þróttarinn, bæði hjá konum og körlum, til að spila 100 leiki fyrir félagið í efstu deild. Þessum stóra áfanga náði hún þegar Þróttur vann góðan sigur á FH í Laugardalnum, 4:1, og styrkti með því stöðu sína í öðru sæti deildarinnar.
Sóley lék fyrst með Þrótti í deildinni árið 2015 og hefur síðan leikið með því í efstu deild frá 2020. Hún hefur ekki misst úr leik undanfarin fjögur tímabil og hefur spilað alla sex leiki Þróttara það sem af er þessu tímabili.
Enginn hefur náð 100 leikjum fyrir karlalið Þróttar í efstu deild en leikjametið þar á Jóhann Hreiðarsson sem lék 95 leiki fyrir félagið í deildinni á árunum 1976 til 1985.
Freyja Karín Þorvarðardóttir, liðsfélagi Sóleyjar í Þrótti, hefur skorað 50 mörk í deildakeppninni eftir að hafa gert tvö marka liðsins gegn FH. Hún skoraði 33 mörk fyrir FHL í 2. deild og hefur nú gert 17 mörk fyrir Þrótt í Bestu deildinni.
Thelma Karen Pálmadóttir úr FH skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í umferðinni, gegn Þrótti, en þetta var hennar 31. leikur.
Tindastóll vann sinn stærsta útisigur í efstu deild frá upphafi í gær en Skagfirðingarnir lögðu þá Víking að velli í Fossvoginum, 4:1. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Tindastóll skorar fjögur mörk á útivelli í deildinni.
Markahæstar í deildinni:
7 Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki
6 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
5 Sandra María Jessen, Þór/KA
4 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
4 Samantha Smith Breiðabliki